Hvað er heilabilun?

Heilabilun er samheiti yfir ýmsa heilasjúkdóma sem skerða minni og vitræna getu.  Alzheimer-sjúkdómurinn er algengasta tegund heilabilunar, en talið er að meira en helmingur allra greininga falli undir þann flokk. Aðrar tegundir heilabilana eru t.d. Lewy-sjúkdómur (skyldur Parkinsonsveiki) og framheilabilun.

Hverjar eru orsakir heilabilunar?

Orsakir heilabilunar eru ólíkar eftir tegund. Hjá Alzheimer-sjúklingumverður rýrnun í vissum hluta heilans vegna útfellinga eða kölkunar utan við og innan í taugafrumum. Þessar útfellingar leiða til skertrar hæfni taugafrumanna til boðskipta sín á milli. Í öllum tegundum heilabilana verða heilafrumur fyrir skaða og afleiðingin er truflun á heilastarfsemi.

Er til meðferð við heilabilun?

Í dag er ekki til eiginleg lækning við heilabilun en til eru lyf sem notuð eru til meðferðar. Í sumum tilfellum draga þessi lyf úr einkennum og hægja jafnvel á framgangi sjúkdómsins um hríð. Mikilvægt er að hafa í huga að margt getur valdið einkennum sem líkjast heilabilun og má þar nefna B-12 skort, sjúkdóma í skjaldkirtli og sjúkdóma í lifur. Til er meðferð við mörgum þessara sjúkdóma.

Hver eru einkennin?

Á fyrstu stigum eru einkennin væg en versna þegar sjúkdómurinn ágerist. Einkennin geta verið eftirfarandi:

  • Minnisleysi sem hefur áhrif á daglegt líf
  • Erfiðleikar við skipulagningu og í krefjandi verkefnum
  • Erfiðleikar við að klára einföld verkefni sem viðkomandi þekkir
  • Erfiðleikar við að muna dagsetningar og staðsetningar
  • Skertur málskilningur og erfiðleikar við skrift
  • Að týna hlutum og erfiðleikar við að rekja hvar hlutir eru niðurkomnir
  • Minni dómgreind
  • Skert vinnugeta og minni þátttaka í félagslífi
  • Persónuleikabreytingar

Frekari upplýsingar má t.d. finna á heimasíðu FAAS (Félag aðstandenda Alzheimarssjúklinga)hjá AD samtökunum í BNA og AD samtökunum í Bretlandi

Hvernig fer klínísk greining fram?

Greining heilabilunarsjúkdóma er bæði flókin og vandasöm. Hún byggir að miklu leyti á útilokun á öðrum sjúkdómum og huglægu mati læknis. Farið er yfir sjúkrasögu viðkomandi og líkamlegt ástand metið af sérfræðingum. Taugasálfræðileg próf eru einnig notuð og tilheyrandi kvarðar sem meta almenna geðheilsu. Einnig er notast við blóðrannsókn eða myndgreiningu til að útiloka þætti sem líkjast einkennum heilabilunar. Klínískar leiðbeiningar landlæknis

Mikilvægi greiningar

Þó að ekki sé hægt að lækna heilabilun getur skipt miklu máli fyrir sjúklinginn og fjölskyldu hans að fá greiningu. Vitað er að einstaklingar sem finna fyrir breytingum á vitrænni getu eða hafa mikla ættarsögu um heilabilun finna fyrir óvissu og áhyggjum. Rétt greining gerir þeim kleift að undirbúa sig og sína nánustu, t.d með skipulagningu og framtíðaráformum þar sem tekið er tillit til sjúkdómsins. Skýrsla Alheimssamtaka AD

Hvers vegna heilarit?

Heilarit metur taugavirkni í heilanum og greinir frávik í starfsemi hans. Heilarit hefur sannað gildi sitt við greiningu á flogaveiki en einnig er heilarit notað til að fylgjast með virkni í heila, t.d. hjá fyrirburum og á gjörgæsludeildum. Lengi hefur verið vitað að heilarit t.d. Alzheimers-sjúklinga eru frábrugðin heilariti heilbrigðs einstaklings. MentisCura hefur undanfarin tíu ár þróað aðferð til að meta heilabilunarsjúkdóma út frá heilariti. Aðferðin, sem hefur hlotið nafnið SIGLA, hefur verið notuð síðan 2012 á Minnismóttöku Landspítalans og gefið góða raun. Þessi nýja aðferð kemur ekki í stað þeirra rannsókna sem læknir þarf að gera til að komast að niðurstöðu um greiningu, en veitir honum þó mikilvægan stuðning í greiningarferlinu.

Viltu vita meira um Siglu?

Sigla